Tvö sjálfsmörk í Laugardalnum

Auður Helga Halldórsdóttir lagði upp mark Selfoss en leikmaður Þróttar batt lokahnútinn á sóknina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði 2-1 þegar liðið heimsótti Þrótt á gervigrasið í Laugardal í kvöld í deildarbikarnum í knattspyrnu.

Selfyssingar stýrðu leiknum í fyrri hálfleik, sem var markalaus, en það dugði ekki til. Þriggja mínútna kafli um miðjan seinni hálfleik reyndist liðinu dýr. Þróttur komst yfir á 76. mínútu eftir að Selfyssingum hafði gengið illa að hreinsa frá marki sínu og á 79. mínútu varð Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir hornspyrnu Þróttara. Í millitíðinni hafði Helena Hekla Hlynsdóttir fengið rautt spjald fyrir brot úti á miðjum vellinum.

Manni færri lögðu Selfyssingar ekki árar í bát og þeim tókst að minnka muninn í uppbótartímanum þegar leikmaður Þróttar skoraði sjálfsmark eftir frábæran sprett Auðar Helgu Halldórsdóttur upp að markinu.

Lokatölur 2-1 og Selfoss situr í 4. sæti riðilsins með 3 stig en Þróttur er í 2. sæti með 6 stig.

Fyrri greinPrófkjöri Framsóknarflokksins frestað
Næsta greinSelfoss og Hrunamenn töpuðu