KFR og Ægir skildu jöfn í stórleik 1. umferðar í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu, 1-1 á Hvolsvelli í kvöld.

Reynir Óskarsson kom KFR yfir á 13. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Hart var barist á köflum en staðan var 1-0 í leikhléi.

Á 60. mínútu braut Heiðar Óli Guðmundsson á Pálma Þór Ásbergssyni innan vítateigs KFR. Vítaspyrna dæmd og Magnús Garðarsson dómari mat það svo að um rautt spjald væri að ræða á Heiðar Óla þar sem hann var aftasti varnarmaður.

Emanuel Nikpalj fór á vítapunktinn og jafnaði metin fyrir Ægi.

Gestirnir úr Þorlákshöfn sóttu meira á lokakaflanum en tókst ekki að finna sigurmarkið. Besta færið fékk Goran Potkozarac á lokamínútunum þegar hann slapp einn í gegn og framhjá Bjarka Oddssyni í marki KFR en Potkozarac skaut boltanum framhjá.

Í uppbótartíma var svo Jóhanni Gunnari Böðvarssyni vísað af velli með sitt annað gula spjald þannig að Rangæingar luku leik níu gegn ellefu og náðu að verja stigið.