Tvö rauð í Suðurlandsslagnum – Árborg með stórsigur

Barátta Atli Þór Jónasson, markaskorari Hamars, stekkur manna hæst í vítateig Uppsveita. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var boðið upp á alvöru Suðurlandsslag á Flúðum í kvöld þar sem Uppsveitir fengu Hamar í heimsókn í 4. deild karla í knattspyrnu.

Liðin eru að berjast á sitthvorum staðnum á stigatöflunni þar sem Hamarsmenn hafa verið á miklu flugi í sumar. Uppsveitamenn gáfu lítið fyrir það og börðust eins og ljón allan tímann. Carlos Castellano kom þeim yfir með marki úr vítaspyrnu á 39. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik.

Hamar sótti án afláts í seinni hálfleiknum og ljóst að eitthvað varð undan að láta. Atli Þór Jónasson jafnaði metin með skoti af stuttu færi eftir þunga sókn á 63. mínútu en skömmu áður hafði Guðjón Örn Sigurðsson fengið sitt annað gula spjald og Uppsveitamenn því einum manni færri þegar þarna var komið við sögu.

Dómarinn hélt áfram að veifa spjöldum í gríð og erg og á 71. mínútu fékk Kristjan Örn Stosic sitt annað gula spjald og því var orðið jafnt í liðum aftur. Hamar sótti mun meira það sem eftir lifði leiks en Uppsveitaliðið varðist vel. Það hefur sennilega aldrei verið jafn auðvelt að velja mann leiksins því fyrirliði þeirra og markaskorari, Carlos Castellano, stýrði vörninni eins og herforingi og vann nánast öll skallaeinvígi sem hann fór upp í. Hamri tókst ekki að finna sigurmarkið og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli.

Þrátt fyrir að hafa misstigið sig í kvöld er Hamar ennþá í toppsæti B-riðilsins með 23 stig, en KH sem er í 2. sæti með 19 stig á reyndar tvo leiki til góða á Hvergerðinga. Uppsveitir eru hins vegar í 7. sætinu með 6 stig.

Árborg skoraði tólf
Árborgarar áttu ekki í vandræðum með að leggja Afríku að velli á útivelli. Lokatölur urðu 0-12. Hartmann Antonsson skoraði tvisvar í fyrri hálfleik auk þess sem þeir Andrés Karl Guðjónsson og Aron Freyr Margeirsson komu boltanum í netið og staðan var 0-4 í hálfleik. Árborgarar bættu svo við átta mörkum í seinni hálfleik; Guðmundur Garðar Sigfússon skoraði fjögur, Sveinn Kristinn Símonarson tvö, Hartmann innsiglaði þrennu sína og eitt markanna var sjálfsmark. Árborg hefur 16 stig í 2. sæti A-riðils en Afríka er sem fyrr á botninum án stiga.

Fyrri greinRáðherrar grilla ofan í gesti Kótelettunnar
Næsta greinÞrengslin á Selfoss og Kótelettustrætó