Tvö rauð og KFR tapaði

KFR komst nálægt sínu fyrsta stigi í 3. deild karla í sumar þegar liðið tapaði 3-2 fyrir Álftanesi á útivelli í kvöld.

Rangæingar mættu baráttuglaðir í leikinn en heimamenn voru þó fyrri til að skora. Gunnar B. Ragnarsson kom KFR síðan yfir með tveimur mörkum, því síðara úr vítaspyrnu og staðan var 1-2 í hálfleik.

Álftnesingar mættu ákveðnir í síðari hálfleik og jöfnuðu 2-2 og þannig stóðu leikar allt fram á 95. mínútu þegar sigurmark leiksins leit dagsins ljós. Í millitíðinni hafði þremur leikmönnum verið vísað af velli, Vésteinn Hauksson fékk sitt annað gula spjald og Bjarki Axelsson fékk beint rautt. Að auki var einum leikmanni Álftanes vikið af velli.

Rangæingar eru því enn án stiga á botni A-riðils en fá nú tækifæri til að rétta úr kútnum því liðið á nú fimm heimaleiki í röð framundan.

Fyrri greinKFK jafnaði í uppbótartíma
Næsta greinSannfærandi sigur Eyjamanna