Tvö rauð í tapleik

Ægismenn töpuðu 0-2 á heimavelli í kvöld þegar liðið tók á móti KV í toppslag B-riðils 3. deildar.

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur og komust þeir yfir snemma leiks. Eftir það tóku Ægismenn öll völd á vellinum og voru sterkari aðilinn en tókst ekki að skora þrátt fyrir ágæt færi. Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk Michael Jónsson beint rautt spjald fyrir meint olnbogaskot og voru Ægismenn virkilega ósáttir við þann dóm, líkt og fleiri ákvarðanir dómara leiksins.

Staðan var 0-1 í hálfleik en þrátt fyrir að vera manni færri sýndu Ægismenn engin veikleikamerki framan af seinni hálfleik. Þeir voru mikið með boltann og Luc Mahop og Milan Djurovic komust báðir í dauðafæri til að jafna en tókst ekki. KV gekk illa að halda boltanum en þeir áttu nokkrar álitlegar skyndisóknir sem sköpuðu usla í vörn Ægis.

KV kláraði leikinn á 82. mínútu með öðru marki sínu. Boltinn barst inn á teiginn eftir aukaspyrnu vinstra megin og eftir klafs í teignum féll boltinn fyrir fætur KV-manns sem skoraði af öryggi.

Ægir reyndi að klóra í bakkann en tókst ekki og áður en yfir lauk voru þeir orðnir níu inni á vellinum því Matthías Björnsson fékk rauða spjaldið eftir að hafa veitt slökum dómara leiksins tiltal á 90. mínútu. Matthías kom inná sem varamaður og hafði verið á grasinu í átta mínútur áður en hann var sendur í sturtu.

Ægir er í 5. sæti riðilsins með 16 stig en KV fór uppfyrir þá í 3. sætið með 19 stig. KFS er í 6. sæti með 13 stig og á leik til góða á Ægi.