Tvö ný félög sækja um aðild að HSK

Tvö ný íþróttafélög voru stofnuð á sambandssvæði HSK í sumar og hafa þau bæði sótt um aðild að HSK, þetta eru Íþróttafélagið Mílan og Lyftingafélagið Hengill.

Stjórn HSK samþykkti á stjórnarfundi á dögunum að veita félögunum bráðabirgða aðild að sambandinu. Formleg inntökubeiðni þeirra verður tekin fyrir á næsta héraðsþingi HSK, sem haldið verður 14. mars nk.

Íþróttafélagið Mílan var stofnað á Selfossi 17. júlí sl. og voru stofnfélagar 20 talsins, samkvæmt félagaskrá sem barst með umsókninni. Á stofnfundinum voru eftirtaldir kosnir í fyrstu stjórn félagsins: Birgir Örn Harðarson, formaður, Eyþór Jónsson, gjaldkeri, Aron Valur Leifsson, meðstjórnandi, Atli Kristinsson, meðstjórnandi og Örn Þrastarson, meðstjórnandi. Félagið hefur þegar látið að sér kveða, en það tekur sem kunnugt er þátt í Íslandsmótinu í handknattleik.

Lyftingafélagið Hengill var stofnað í Hveragerði 17. júlí 2014 og voru stofnfélagar 60 talsins. Stjórn félagsins skipa þeir Einar Alexander Haraldsson, formaður, Ævar Svan Sigurðsson, varaformaður, Kristján Óðinn Unnarsson, ritari og Pétur Pétursson, gjaldkeri. Í varastjórn eru þau Heiðar Ingi Heiðarsson og María Rún Þorsteinsdóttir. Félagið hefur hafið starfsemi og er með æfingar í ólympískum lyftingum í Crossfit Hengli í Hveragerði einu sinni í viku.

Fyrri greinViðar og Jón Daði í A-landsliðshópnum
Næsta greinFullskipað lið Ásahrepps í Útsvari