Tvö mörk Martin dugðu ekki til

Gary Martin skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Fram í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn var færður á upphitað gervigras í Safamýrinni þar sem Selfossvöllur var ekki leikfær vegna snjóa.

Selfyssingar komust yfir snemma leiks þegar Gary Martin skoraði með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir góðan undirbúning Gonzalo Zamorano. Framarar jöfnuðu og komust yfir með nokkurra mínútna millibili um miðjan fyrri hálfleikinn og bættu svo þriðja markinu við úr vítaspyrnu áður en flautað var til hálfleiks.

Fram komst svo í 4-1 snemma í fyrri hálfleik en Martin minnkaði muninn í 4-2 á 57. mínútu með frábæru marki. Stefán Þór Ágústsson tók langt útspark, alveg fram á Martin, sem tók við boltanum og lyfti honum snyrtilega yfir Ólaf Íshólm í marki Fram.

Sigur Framara varð óþarflega stór en þeir bættu tveimur mörkum við á lokakafla leiksins. Fyrra markið var sjálfsmark og það síðar kom úr þröngu færi í síðustu sókn leiksins. Lokatölur 6-2.

Selfoss er í neðsta sæti síns riðils í A-deildinni, án stiga, og mætir Fylki á útivelli í næstu umferð, næsta föstudagskvöld.

Fyrri greinViðvaranir uppfærðar í appelsínugult
Næsta greinÖkumenn í vanda á Þingvallavegi