Tvö mörk á síðustu sex mínútunum tryggðu Selfoss jafntefli

Selfyssingar kræktu í stig þegar þeir heimsóttu Keflavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Jón Daði Böðvarsson jafnaði 2-2 á 90. mínútu.

Logi Ólafsson gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu þar sem Andri Freyr Björnsson, Joe Tillen og Sigurður Eyberg Guðlaugsson komu inn fyrir Moustapha Cissé, Ivar Skjerve, sem er meiddur og Endre Brenne, sem var í leikbanni. Babacar Sarr var færður aftur í miðvörðinn og leysti hann Brenne af.

Keflvíkingar áttu fyrstu færi leiksins en boltinn hafnaði í þverslánni á marki Selfoss strax á 5. mínútu. Fimm mínútum síðar varði Ismet Duracak vel skot úr teignum og á 19. mínútu áttu Keflvíkingar skot rétt framhjá.

Selfyssingar höfðu verið meira með boltann þessar fyrstu tuttugu mínútur leiksins en Keflvíkingar áttu færin.

Á 38. mínútu komust Keflvíkingar yfir þegar Jóhann Birnir Guðmundsson lék á tvo Selfyssinga og skaut föstu skoti úr teignum í netið. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Selfyssingar voru ennþá að kyngja hálfleiksteinu þegar Keflvíkingar komust í 2-0 á 47. mínútu. Arnór Ingvi Traustason skoraði af öryggi úr teignum eftir sendingu frá vinsti. Tveimur mínútum síðar fékk Joe Tillen dauðafæri fyrir Selfoss en vippaði boltanum í hendurnar á markverði Keflavíkur.

Þegar leið á seinni hálfleikinn tóku Selfyssingar öll völd á vellinum og sóttu hart að marki Keflavíkur. Jón Daði Böðvarsson lét verja frá sér tvívegis og Viðar Örn Kjartansson átti skalla beint á markvörð Keflavíkur.

Á 72. mínútu áttu Selfyssingar að fá vítaspyrnu þegar brotið var á Moustapha Cissé innan teigs en slakur dómari leiksins sleppti því að flauta. Á næstu mínútum áttu Viðar og Agnar Bragi Magnússon marktilraunir en enn og aftur sá markvörður heimamanna við tilraunum Selfoss. Ólafur Karl Finsen átti einnig skot sem fór í varnarmann og rétt yfir markið.

Það var ekki fyrr en á 84. mínútu að stíflan brast en Babacar Sarr minnkaði þá muninn í 2-1 með skalla eftir hornspyrnu Ólafs Karls. Þetta var fyrsta mark Babacar í efstu deild.

Selfyssingar jöfnuðu svo verðskuldað metin á 90. mínútu. Eftir hornspyrnu barst boltinn aftur inn í teiginn á Jón Daða sem smellti boltanum á hælinn og skoraði af öryggi. Þetta var síðasta færi leiksins og Selfoss situr áfram í 10. sæti deildarinnar, nú með 8 stig. Keflavík hefur 11 stig í 9. sæti.

Næsti leikur Selfoss er á heimavelli á fimmtudagskvöld þegar liðið tekur á móti Stjörnunni.

Fyrri greinSex bráðaútköll í dag
Næsta grein156 teknir fyrir hraðakstur í júní