Tvö mörk á lokasprettinum dugðu skammt

Selfoss tók á móti Val í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Valskonur sigruðu 2-5 en Selfoss klóraði í bakkann með tveimur mörkum undir lok leiks.

Strax á 5. mínútu leiksins kom Elín Metta Jensen Val yfir með þrumuskoti í þverslána og inn. Valskonur voru sterkari á upphafsmínútunum og sluppu tvisvar innfyrir á næstu tíu mínútunum en Nicole McClure sá vel við þeim í bæði skiptin.

Á 21. mínútu kom fyrsta færi Selfyssinga þegar Guðmunda Brynja Óladóttir skaut rétt yfir markið eftir gott spil uppúr hornspyrnu.

Valur skoraði tvö mörk með skömmu millibili þegar rúmar fimmtán mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Á 28. mínútu skoraði Dóra María Lárusdóttir eftir klaufagang í vörn Selfoss en sóknarmaður Vals virtist rangstæður í aðdraganda marksins án þess að dómarinn léti það á sig fá. Tveimur mínútum síðar gaf Selfossvörnin Val pláss til þess að spila glæsilega í gegn og Elín Metta kom Val í 0-3.

Selfyssingar reyndu af veikum mætti að sækja í fyrri hálfleik en liðið mátti sín lítils í þriggja manna sókn gegn sex eða sjö Valskonum á meðan restin af Selfossliðinu fylgdi ekki upp völlinn.

Á 40. mínútu átti Melanie Adelman ágætt skot rétt yfir Valsmarkið eftir að Selfoss átti aukaspyrnu og boltinn barst aftur út úr teignum á Melanie. Hún var aftur á ferðinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Nicole tók langt útspark sem varnarmaður Vals skallaði afturfyrir sig. Melanie var sloppin ein innfyrir en skaut í stöngina og Eva Lind Elíasdóttir fylgdi eftir á ferðinni en var ekki í nógu góðu jafnvægi til að ná boltanum.

Staðan var 0-3 í hálfleik en leikurinn snerist nokkuð í seinni hálfleiks. Valskonur mættu til leiks með hangandi hendi en Selfoss náði ekki að láta kné fylgja kviði og refsa þeim fyrir það fyrr en undir lokin.

Á 50. mínútu kom hár bolti innfyrir vörn Vals þar sem markvörður og varnarmaður liðsins hlupu saman. Boltinn barst á Guðmundu sem áttaði sig ekki á því hvað hún hafði mikinn tíma og skaut því strax og rétt framhjá markinu. Sjö mínútum síðar fengu Valskonur aukaspyrnu sem skapaði mikinn usla í teignum en Björg Magnea Ólafs kom til bjargar á síðustu stundu fyrir Selfoss.

Á 60. mínútu galopnuðu Valskonur vörn Selfoss en Dóra María skaut framhjá úr góðu færi. Valur gerði síðan endanlega út um leikinn með tveimur mörkum á tveggja mínútna kafla. Á 66. mínútu komust þær í skyndisókn upp hægra megin, boltinn barst fyrir markið þar sem Elín Metta var á auðum sjó og skoraði. Tveimur mínútum síðar spiluðu Valskonur sig í gegnum Selfossvörnina og Dóra María skoraði auðveldlega og kom Val í 0-5.

Valur bætti við sjötta markinu á 70. mínútu eftir hornspyrnu en dómari leiksins, sem átti margar undarlegar ákvarðanir, dæmdi Valskonur brotlegar í markteignum eftir að tvær þeirra höfðu fallið um hvora aðra.

Síðasta korterið áttu Selfyssingar og á 75. mínútu rétt missti Eva Lind af boltanum á markteignum eftir góða fyrirgjöf frá vinstri. Þremur mínútum síðar minnkaði Katrín Ýr Friðgeirsdóttir muninn. Selfoss fékk aukaspyrnu á vinstri kantinum eftir að brotið hafði verið á Evu Lind og eftir barning í teignum afgreiddi Katrín boltann í netið.

Á 82. mínútu spiluðu Selfosskonur vel sín á milli sem lauk með því að Melanie sendi innfyrir á Evu Lind sem þrumaði í netið af stuttu færi. Það reyndist síðasta færi leiksins.

Selfoss er sem fyrr í 9. sæti deildarinnar með 8 stig eins og Afturelding en Mosfellingar hafa betra markahlutfall.

Fyrri greinDregur úr veiði í Veiðivötnum
Næsta greinFéll af hestbaki og slasaðist