Tvö mörk Ægis á lokamínútunum

Ægismenn halda í vonina um að komast í úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu eftir dramatískt 2-2 jafntefli gegn Ými á heimavelli í kvöld.

Jafnræði var með liðunum allan leikinn en Ýmir komst yfir á 32. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik.

Útlitið dökknaði síðan verulega hjá Ægismönnum þegar Ýmir komst í 0-2 þegar níu mínútur voru eftir af leiknum. Þorlákshafnarliðið svaraði hins vegar fyrir sig með tveimur mörkum en Alfreð Jóhannsson skoraði á 85. mínútu og Aco Pandurevic jafnaði leikinn á 89. mínútu.

Ægir er í 5. sæti B-riðils með 20 stig en aðeins eru þrjú stig í 2. sætið þegar tvær umferðir eru eftir. Þar sitja Léttismenn en Ægir og Léttir eigast einmitt við í næstu umferð.