Tvö gull á Sunnumótinu

Keppendur frá Umf. Selfoss unnu tvö gull á hinu árlega Sunnumóti í kraftlyftingum sem fram fór á Akureyri þann 16. júlí sl.

Rósa Birgisdóttir vann sinn flokk (+84kg) og lyfti í réttstöðu 165 kg og í bekkpressu 77,5 kg. Þóra Þorsteinsdóttir keppti í sama flokki og Rósa og lyfti í réttstöðu 145 kg og 70 kg í bekk.

Katrín Jóna Kristinsdóttir vann sinn flokk (-84kg) og lyfti í réttstöðu 105 kg og 52,5 kg í bekkpressu.

Sunnumótið er kvennamót og er kallað „kjötmót“ þar sem allur venjulegur öryggisbúnaður sem eykur styrk keppanda, er bannaður. Það eru stálbrækur í réttstöðulyftu og hnébeygjum og svokallaður sloppur í bekkpressunni. Búnaðurinn eykur á stöðugleika mjaðma- og axlarliða og eykur því styrk keppandans.

Á mótinu er aðeins keppt í réttstöðulyftu og bekkpressu og hnébeygjum sleppt. Þetta er gert til að gera mótið meira aðlaðandi fyrir þær konur sem ekki stunda íþróttina af miklum þunga og sleppa því að æfa þungar hnébeygjur. Hnébeygjurnar er flóknasta greinin og sú sem fælir flesta frá ef svo má að orði komast.

Frábær þátttaka var á mótinu en sextán konur voru skráðar til leiks.

Fyrri greinBergþórshvoll brenndur
Næsta greinFlutt með þyrlu eftir bílveltu