Selfoss lyfti sér upp í 5. sæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu með öruggum sigri á KR á útivelli í dag og sendi um leið KR niður í Lengjudeildina.
KR varð að sigra í dag til þess að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni og þær ætluðu greinilega að selja sig dýrt því leikurinn var bráðfjörugur og mörkin komu á færibandi.
Íris Una Þórðardóttir kom Selfyssingum yfir á 15. mínútu þegar hún skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Guðmunda Brynja Óladóttir fyrir KR, gegn sínum gömlu félögum.
Miranda Nild var aðsópsmikil í leiknum. Hún kom Selfyssingum aftur yfir á 36. mínútu og fékk svo tvö góð færi á lokamínútum fyrri hálfleiks, en inn vildi boltinn ekki, 1-2 í hálfleik.
KR-konur mættu af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og Marcella Barberic jafnaði metin á 49. mínútu eftir slæm mistök Tiffany Sornpao í marki Selfoss. Barberic átti skot í rammann á Selfossmarkinu skömmu síðar en í stað þess að KR kæmist yfir voru það Selfyssingar sem fengu hornspyrnu í næstu sókn og aftur var Íris Una mætt í teiginn til þess að skora.
Selfyssingar ætluðu ekki að leyfa KR-ingum að komast aftur inn í leikinn og Miranda Nild bætti við öðru marki sínu á 64. mínútu áður en Katla María Þórðardóttir gerði endanlega út um leikinn með góðu marki á 80. mínútu, eftir fyrirgjöf Bergrósar Ásgeirsdóttur.
KR skoraði sárabótarmark úr vítaspyrnu í uppbótartímanum og niðurstaðan varð 3-5 sigur Selfoss, sem lyfti sér upp í 5. sæti deildarinnar.