Tveir Sunnlendingar á Special Olympics

Sigríður Erna Kristinsdóttir og Reynir Ingólfsson úr Íþróttafélaginu Suðra eru meðal keppenda Íslands á Special Olympics í Aþenu í Grikklandi 25. júní til 4. júlí.

Sigríður er fædd og uppalin á Selfossi en Reynir er fæddur og uppalin í Biskupstungum en býr nú á Selfossi. Sigríður fer til að keppa í frjálsum íþróttum og Reynir í knattspyrnu.

Sigríður og Reynir hafa verið dugleg að afla fjár fyrir ferðina, raunar gekk þeim svo vel að þau söfnuðu umfram leyfileg hámörk hjá Special Olympics á Íslandi sem voru 120.000 kr. og fengu því leyfi styrktaraðila til að láta umframfjármagnið renna til ferðafélaga sinna sem ekki hefur gengið eins vel við fjáröflun.

Sigríður og Reynir vilja ásamt foreldrum sínum koma sérstökum þökkum til styrktaraðila sinna og nefna að fyrstu viðbrögðin og þau glæsilegustu voru frá Kvenfélagi Selfoss sem styrkti þau fyrir ríflega helming farareyris. Einnig fengu þau góðan stuðning frá sveitarfélaginu Bláskógabyggð, félagasamtökum og fyrirtækjum.

Umfang og glæsileiki alþjóðaleika Special Olympics líkist Ólympíumótum en keppnisform er gjörólíkt og rétt er að taka fram að þetta eru ekki Ólympuleikar fatlaðra sem haldnir eru í kjölfar hefðbundinna Ólympíuleika. Engin lágmörk þarf á leikana og undankeppni fer fram þannig að allir keppa í jöfnum riðlum. Allir verða því verðlaunahafar og margir stíga fram í sviðsljósið í fyrsta skipti á þessum leikum.

Fyrri greinErill hjá Hvolsvallarlöggu
Næsta greinHreiðrum rústað af manna völdum