Tveir sigrar í röð hjá Hamri

Kvennalið Hamars vann annan leikinn í röð þegar liðið lagði Fjölni í Iceland Express deildinni í körfubolta í gær. Sigurinn var öruggari en lokatölurnar, 76-81, benda til.

Eftir jafnar uppphafsmínútur skoraði Hamar tólf stig í röð og komst í 8-21. Fjölnir minnkaði muninn strax og staðan var 21-28 að fyrsta leikhluta loknum. Það var lítið skorað í 2. leikhluta en Hamar jók forskotið um tvö stig og staðan var 33-42 í hálfleik.

Hamarskonur mættu ákveðnar inn í seinni hálfleikinn og áttu 3. leikhluta algjörlega. Liðið spilaði fína vörn og gekk vel í sókninni. Eftir að hafa skorað síðustu níu stigin í 3. leikhluta var staðan 43-68 fyrir Hamri.

Með 25 stiga forskot í pokahorninu voru Hamarskonur full værukærar í síðasta leikhlutanum. Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum var staðan 58-79 og ekkert benti til annars en að Hamar myndi sigra. Þá skoruðu Fjölniskonur átján stig í röð á meðan Hamarskonur hittu illa og hentu boltanum frá sér og skyndilega var staðan orðin 76-79 og fjórtán sekúndur eftir á klukkunni. Fjölniskonur brutu á Sam Murphy og henni brást ekki bogalistin á vítalínunni. Murphy hitti úr báðum skotunum þegar fimm sekúndur voru eftir og tryggði Hamri endanlega sigurinn.

Katherine Graham var best í liði Hamars með 20 stig, 8 fráköst og 6 stolna bolta. Murphy skoraði einnig 20 stig og tók 9 fráköst. Marín Davíðsdóttir átti líka fínan leik, skoraði 12 stig og tók 11 fráköst og Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 11 stig.

Þrátt fyrir tvo sigra í röð er Hamar enn á botni deildarinnar með 8 stig en Fjölnir er einu sæti ofar með 10 stig.