Tveir Kanar í kvennalið Hamars

Körfuknattleiksdeild Hamars hefur samið við tvo sterka bandaríska leikmenn um að leika með liðinu í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.

Þetta eru þær Hannah Tuomi og Jaleesa Ross og eru þær væntanlegar til landsins í byrjun september.

Hanna Tuomi kemur úr Vanderbilt háskólanum og leikur í stöðu miðherja. Hún skoraði 11,2 stig og var með 6 fráköst á lokaárinu sínu í skóla ásamt því að vera með 60% nýtingu í 2 stiga skotum. Hannah Tuomi þykir mikill leiðtogi og var hún ein af þremur fyrirliðum Vanderbilt skólans.

Jaleesa Ross kemur kemur úr Fresno St. og getur bæði spilað sem leikstjórnandi og skotbakvörður. Jaleesa skorði 16,3 stig var með 4,6 fráköst og gaf 3,8 stoðsendingar ásamt því að stela 2,1 bolta á lokaárinu sínu í Fresno St. Jaleesa þykir góður varnarmaður og góð þriggjastiga skytta. Hún var valinn varnarmaður ársins í sinni deild tímabilið 2009-2010.

Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Hamars frá síðasta tímabili en engan bilbug að finna á forráðamönnum deildarinnar. Það er ljóst að nýr þjálfari Hamars, Lárus Jónsson á mikið verk fyrir höndum við að slípa til nýtt lið í vetur.

Frá síðasta vetri eru horfnar á braut þær Kristrún Sigurjónsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir og Þórunn Bjarnadóttir sem allar eltu þjálfarann Ágúst Björgvinsson yfir í Val.

Einnig mun Íris Ársgeirsdóttir halda utan á næstu dögum í sjálfboðaliðsstarf á vegum Rauða krossins og verður aftur kominn í körfuboltaskóna í nóvember á þessu ári. Eins og sunnlenska.is hefur greint frá hefur Fanney Guðmundsóttir samið við franska liðið Union Sportive de La Glacerie sem spilar í NF2-deildinni þar í landi.

Álfhildur Þorsteinsdóttir og Sóley Guðgeirsdóttir hafa tekið fram skóna að nýju og munu þær koma með dýrmæta reynslu inn í hópinn auk þess sem yngri stelpurnar í hópnum eru ári eldri en í fyrra og fá núna mikilvægar mínútur í efstu deild þar sem þær ætla sér að vera verðugir fulltrúar sunnlenskrar kvennakörfu í vetur.

Fyrri greinReyndi að hlaupa undan lögreglu
Næsta greinMargir óku of hratt við Borg