Tveir Íslandsmeistaratitlar á Selfoss

Selfyssingar rökuðu inn verðlaunum á Íslandsmótinu í júdó. Ljósmynd/UMFS

Keppendur frá júdódeild Selfoss náðu góðum árangri á Íslandsmóti seniora um síðustu helgi en þeir Breki Bernharðsson og Egill Blöndal bættu báðir Íslandsmeistaratitlum í safnið.

Breki átti góðan dag og sigraði -81 kg flokkinn örugglega í fyrsta sinn en hann varð Íslandsmeistari í -73 kg flokki árið 2015. Breki varð síðan í 3. sæti í opna flokknum eftir að hafa tapað fyrir Árna Pét­ri Lund, Júdófélagi Reykjavíkur, í undanúrslitum en Árni Pétur sigraði í opna flokknum og -90 kg flokki.

Egill sigraði í -100 kg flokknum eftir glímu á móti samherja sínum, Úlfi Böðvarsyni, en Úlfur hlaut silfrið. Egill gaf ekki kost á sér í opna flokkinn þar sem hann er enn að jafna sig eftir krossbandsaðgerð sem hann fór í í upphafi árs.

Júdódeild Selfoss sendi níu keppendur á mótið en auk titlanna tveggja og silfurverðlauna Úlfs hlutu Selfyssingar eitt silfur og þrenn bronsverðlaun til viðbótar. Hrafn Arnarson varð í 2. sæti í -90 kg flokknum og í 3. sæti í opna flokknum, Jakub Tomczyk hlaut brons í -81 kg flokki og Sigurður Hjaltason varð sömuleiðis í 3. sæti í +100 kg flokki.

Þeir Styrmir Hjaltason og Fannar Júlíusson voru yngstu keppendurnir frá Selfoss og kepptu þeir á sínu fyrsta senioramóti. Þeir sýndu miklar framfarir og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Fyrri greinAllir geta hlaupið þann 1. maí
Næsta greinSunnlensku liðunum spáð falli