Tveir í röð hjá Þórsurum

Jordan Semple lék vel gegn sínum gömlu félögum og skoraði 21 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar unnu sannfærandi sigur á KR í úrvalsdeild karla í körfubolta á útivelli í kvöld. Mikilvæg stig í húsi en bæði lið hafa verið í botnbaráttunni í vetur.

Það var kraftur í báðum liðum í upphafi leiks en Þórsarar sýnu sprækari. Staðan var 50-61 í hálfleik og Þórsarar drógu vígtennurnar endanlega úr KR í 3. leikhluta með góðri vörn og kraftmiklum sóknarleik. Staðan var 69-85 í upphafi 4. leikhluta og á með KR-ingar koðnuðu niður bættu þeir grænu ennþá við og sigruðu að lokum 83-105.

Jordan Semple lék vel gegn sínum gömlu félögum, skoraði 21 stig, tók 7 fráköst og sendi 8 stoðsendingar. Maður leiksins var þó Vincent Shahid sem skoraði 26 stig, tók 9 fráköst og sendi 11 stoðsendingar. Styrmir Snær Þrastarson var sömuleiðis öflugur með 24 stig og Fotios Lampropoulos skoraði 15 stig og tók 11 fráköst.

Þetta var annar sigur Þórsara í röð en þeir eru nú komnir með 10 stig og upp í 9. sætið en KR-ingar eru áfram í botnsætinu með 4 stig.

KR-Þór Þ. 83-105 (26-33, 24-28, 19-24, 14-20)
Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 26/9 fráköst/11 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 24, Jordan Semple 21/7 fráköst/8 stoðsendingar/4 varin skot, Fotios Lampropoulos 15/11 fráköst, Pablo Hernandez 7/5 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 5, Emil Karel Einarsson 5, Davíð Arnar Ágústsson 2.

Fyrri greinSóttu hrakta ferðalanga að Fjallabaki
Næsta greinSef alltaf í ullarsokkum