Tveir í röð hjá Ægi

Ægir vann sinn annan sigur í röð í 2. deild karla í knattspyrnu í dag, þegar Völsungur kom í heimsókn í Þorlákshöfn.

Liðin eru í harðri botnbaráttu og þrátt fyrir sigur Ægis þá er liðið enn í fallsæti, 11. sætinu með 8 stig, en Völsungur er einu sæti ofar með jafn mörg stig og betra markahlutfall.

Guðmundur Garðar Sigfússon kom Ægismönnum yfir á 24. mínútu og Daniel Kuczynski bætti öðru marki við á 43. mínútu.

Staðan var 2-0 í hálfleik en Kuczynski skoraði aftur á upphafsmínútum seinni hálfleiks og tryggði Ægi 3-0 sigur.