Tveir deildarmeistaratitlar í hópfimleikum

Vormót Fimleikasambands Íslands, sem var jafnframt síðasta mótið í GK mótaröð FSÍ, fór fram á Akureyri um síðustu helgi. Fimleikadeild Selfoss átti níu lið í keppninni og stóðu þau sig öll með stakri prýði.

Helstu úrslit voru að í 4. flokki A-deild sigraði lið Selfoss 9 með frábærar æfingar og mikinn erfiðleika og náðu með því að vera efsta liðið í deildarkeppni vetrarins og uppskáru deildarmeistaratitil annað árið í röð. Það má með sanni segja að þær séu með fullt hús eftir veturinn þar sem þær urðu líka Íslandsmeistarar annað árið í röð á Íslandsmóti unglinga í vetur. Lið Selfoss 11 keppti einnig í þessari deild en það eru ungar og efnilegar stelpur sem eiga ár til góða í flokknum en þær enduðu í 5. sæti. Í 4. flokki B-deild keppti lið Selfoss 10 og stóðu sig mjög vel og náðu 2. sætinu.

Í 3. flokki A-deild kepptu lið Selfoss 6 og Selfoss 8. Lið Selfoss 6 sem er á eldra ári í flokknum sigruðu með nokkrum yfirburðum en lið Stjörnunnar og Gerplu voru í 2. og 3.sæti. Með því tryggðu Selfossstelpurnar sér deildarmeistaratitil annað árið í röð. Selfoss 8 sem er á yngra ári í flokknum hafa sýnt góðan árangur í vetur og hafa haldið sæti sínu í A-deildinni í allan vetur. Þær enduðu í 5. sæti á þessu móti sem er mjög góður árangur verandi á yngra ári.

Í 2. flokki kvenna voru Selfoss 4 í harðri baráttu um gullið við lið Stjörnunnar og Gerplu og skiptust liðin á sigrum á áhöldunum. Lið Selfoss sigraði dýnuna með frábærum árangri en það dugði þeim í 3. sæti samanlagt. Liðið er ungt og efnilegt og hefur sýnt mikinn stíganda í æfingum sínum í vetur. Í 2. flokki blandaðra liða sýndi liðið miklar framfarir og voru með hæstu einkunn á gólfi en höfnuðu í 2. sæti eftir harða keppni við lið Gerplu.

Í drengjaflokki yngri var Selfossliðið eina liðið sem var mætt til þátttöku og sýndu þeir frábærar æfingar á öllum áhöldum og fengu gullmedalíu fyrir vikið. Í drengjaflokki eldri keppti lið Selfoss við lið frá Stjörnunni en þar sem Selfossliðið var ekki með dans þá voru þeir ekki í baráttu. Þeir sýndu samt flottar æfingar og hafa verið í góðri framför í vetur.

Fyrri greinRagnar Geir: Stöðvum tapið!
Næsta greinFjarskiptafélag Ásahrepps stofnað