Tveir bikarmeistaratitlar og tólf HSK met

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð bikarmeistari í hástökki karla, aðeins 17 ára gamall. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

HSK/Selfoss sendi ungt lið til leiks á bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem fram fór á Sauðárkróki um síðustu helgi. Liðið varð í 5. sæti stigakeppninnar og landaði tveimur bikarmeistaratitlum.

Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Selfoss, varð bikarmeistari í 1.500 m hlaupi karla á tímanum 4:01,31 mín. Tími Kristins er héraðsmet í flokki 35-30 ára öldunga en hann bætti tólf ára gamalt met Sigurbjörns Árna Arngrímssonar um 9,84 sekúndur.

Hinn 17 ára gamli Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, varð síðan bikarmeistari í hástökki er hann stökk yfir 1,94 m og bætti sinn besta árangur um 2 sentimetra.

Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, tók silfrið í þrístökki en hún tvíbætti HSK-metið í fjórum aldursflokkum sem gerir átta héraðsmet hjá henni. Fyrra metstökkið var 11,79 m en hún bætti svo um betur og stökk 11,85 m og hún á því metin í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.

Kristján Kári Ólafsson, Umf. Selfoss, bætti enn eitt HSK metið í sleggjukasti í flokki 16-17 ára þegar hann kastaði karlasleggjunni 38,75 m og bætti eigið met um 39 sm. Kristján Kári varð í 6.sæti í sleggjukastinu.

Þá setti Ívar Ylur Birkisson, Íþf. Dímon, tvö héraðsmet þegar hann hljóp 110 m grindahlaup á 15,28 sek og varð í 3. sæti. Ívar Ylur bætti eigið met í 16-17 ára flokknum um 0,7 sekúndur og í flokki 18-19 ára bætti hann 37 ára gamalt met Ólafs Guðmundssonar um 0,68 sekúndur.

Lið HSK/Selfoss hlaut 110 stig í heildarstigakeppninni en FH-ingar urðu bikarmeistarar með 164 stig.

Bikarlið HSK/Selfoss. Ljósmynd/Ólafur Guðmundsson
Fyrri greinBlóð, sviti og tár í nágrannaslagnum
Næsta greinÞrír fangar réðust á fangaverði