Tveimur skrefum á undan í lokin

Guðjón Baldur Ómarsson lék vel fyrir Selfyssinga í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann nokkuð öruggan sigur á ÍR í Olísdeild karla í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.

Selfoss skoraði fyrstu tvö mörkin en ÍR jafnaði 5-5 og fyrri hálfleikurinn var í járnum lengst af. Selfoss náði aftur tveggja marka forskoti en ÍR jafnaði jafnharðan og staðan í hálfleik var 15-15.

Í seinni hálfleik komst betri mynd á sóknarleik Selfyssinga og þeir náðu fljótlega fjögurra marka forskoti, 21-17. Það braut ÍR-inga ekki því þeir svöruðu fyrir sig og náðu að jafna, 26-26, þegar tólf mínútur voru eftir.

Selfoss var hins vegar skrefinu á undan – eða jafnvel tveimur skrefum á undan – allan lokakaflann og leiddu heimamenn lengst af með tveimur mörkum. Lokatölur urðu 32-30.

Ísak Gústafsson og Guðjón Baldur Ómarsson voru markahæstir Selfyssinga með 8 mörk en Guðjón nýtti öll sín skot í leiknum. Hannes Höskuldsson, Richard Sæþór Sigurðsson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu allir 3 mörk, Einar Sverrisson og Ragnar Jóhannsson 2 og þeir Karolis Stropus, Guðmundur Hólmar Helgason og Elvar Elí Hallgrímsson skoruðu allir 1 mark.

Vilius Rasimas varði 14 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 6. sæti með 21 stig, jafnmörg stig og Framarar sem eru í 3. sæti og þar á milli eru Stjarnan og Afturelding. ÍR er hins vegar í harðri fallbaráttu með 8 stig í næst neðsta sæti.

Fyrri greinSelfoss skellti Sindra – Hamar með sigur en Hrunamenn ekki
Næsta greinÁrborg vann Suðurlandsslaginn – Dramatík hjá Hamri