Tveggja marka tap gegn Val

Selfyssingar hófu leik í Olísdeild kvenna í handbolta á ný eftir jólafrí í dag. Valur kom í heimsókn á Selfoss og sigraði 22-24.

Leikurinn var jafn og spennandi en lítið skorað lengst af. Valur náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik en Selfyssingar jöfnuðu og staðan var 9-9 í hálfleik.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik stóðu leikar 10-10 en Valur náði í kjölfarið þriggja marka forskoti, 15-18. Selfoss náði að minnka muninn niður í eitt mark en Valsliðið var skrefinu á undan á lokakaflanum og sigraði að lokum 22-24.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 8/2 mörk. Þuríður Guðjónsdóttir skoraði 5, Kristrún Steinþórsdóttir og Carmen Palamariu 3 og þær Hildur Öder Einarsdóttir, Elena Birgisdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 14/1 skot í marki Selfoss og var með 37% markvörslu.

Fyrri greinNý gisti­álma byggð í sum­ar
Næsta greinVill aðild að tæknisviði uppsveita