Tvær milljónir í tilefni af góðum árangri

Bæjaryfirvöld í Árborg færðu knattspyrnudeild Umf. Selfoss tvær milljónir króna að gjöf á laugardag í tilefni þess að bæði meistaraflokkslið deildarinnar náðu þeim árangri að komast í hóp þeirra bestu á næsta ári.

Óskar Sigurðsson, formaður deildarinnar, tók við viðurkenningarskjali um framlagið úr hendi Eyþórs Arnalds á lokahófi knattspyrnudeildarinnar í Hvítahúsinu á laugardagskvöld.

„Þetta er gríðarlegur styrkur fyrir báða flokka og frábært framlag hjá bæjarstjórninni,“ sagði Óskar í samtali við Sunnlenska. Hann segir styrkinn muni nýtast í starfsemi deildarinnar og þann mikla rekstur sem þar fer fram. „Við erum umsvifamikill atvinnurekandi, bara í eldri flokkum erum við með sex þjálfara að störfum, auk framkvæmdastjóra og svo þjálfara í yngri flokkum.“

„Það er lítið til af peningum í bæjarsjóði, en þeir fjármunir sem við erum að setja í íþróttastarfi margfalda sig í formi þess öfluga sjálfboðaliðastarfs sem þar fer fram,“ sagði Eyþór Arnalds um styrkinn. „Það er heldur ekki á hverju ári sem tvö lið í sama bænum komast í úrvalsdeild, og við gleðjumst yfir því,“ bætti hann við.

Fyrri greinSlasaður göngumaður í Reykjadal
Næsta greinTuttugu umsækjendur hjá Árborg