Tryggvi í sænsku úrvalsdeildina

Tryggvi Þórisson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Handknattleiksmaðurinn Tryggvi Þórisson frá Selfossi hefur gengið til liðs sænsku deildar- og bikarmeistarana IK Sävehof og gert tveggja ára samning við félagið.

„Ég hef fylgst með Sävehof og heyrt mjög jákvæða hluti um félagið. Ég hlakka til að kynnast leikmönnunum og að fá að halda áfram að þróa minn leik hér. Það er sigurhefð hjá Sävehof og ég kann að meta það,“ segir Tryggvi á heimasíðu sænska félagsins.

Tryggvi hefur verið sterkur í vörn Selfoss á undanförnum árum og var hluti af liðinu sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2019. Þá hefur hann verið lykilmaður í yngri landsliðum Íslands og var í U20 liðinu sem tryggði sér á dögunum sæti á HM 2023.

Sävehof er stórveldi í sænska handboltanum en liðið hefur orðið sænskur meistari sjö sinnum, þar af bæði 2019 og 2021, auk þess sem þeir unnu deildarkeppnina og sænska bikarinn á síðasta tímabili.

Fyrri greinLést við að bjarga syni sínum
Næsta greinÁrborgarar léttir og kátir