Tryggir KFR 1,8 milljónir króna á ári

Knattspyrnufélag Rangæinga og Rangárþing ytra gengu í dag frá þjónustusamningi sín á milli vegna útbreiðslu knattspyrnu í íþróttastarfi.

Þjónustusamningi þessum er ætlað að efla samstarf milli sveitarstjórnar Rangárþings ytra og Knattspyrnufélags Rangæinga og tryggja öflugt íþróttastarf fyrir börn og unglinga í sveitarfélaginu.

Samningnum er ætlað að tryggja enn frekar starfsemi Knattspyrnufélags Rangæinga enda er sveitarstjórn þeirrar skoðunar að það sinni öflugu og viðurkenndu forvarnarstarfi. Samkvæmt samningnum hefur formaður Knattspyrnufélags Rangæinga yfirumsjón með öllum samskiptum félagsins við íþrótta- og tómstundanefnd Rangárþings ytra.

Þjónustusamningurinn felur í sér greiðslu frá Rangárþingi ytra til Knattspyrnufélags Rangæinga að fjárhæð kr.1.800.000 á ári á samningstímanum og skal upphæðinni varið til eflingar og útbreiðslu á íþróttum barna- og unglinga í sveitarfélaginu.

Fyrri greinLjósnetið tengt víða á Suðurlandi
Næsta greinHestamennska kennd í Hvolsskóla