„Trommurnar fóru í taugarnar á okkur“

Valur Ingimundarson, þjálfari FSu, var brattur þrátt fyrir tapið gegn Þórsurum í Þorlákshöfn í kvöld.

„Við byrjuðum illa og strákarnir létu trommurnar fara í taugarnar á sér. Þeir hafa ekki spilað svona leik áður í stemmningu og látum. Við sýndum hins vegar mikinn karakter í seinni hálfleik og það var allt annar leikur hjá okkur,“ sagði Valur í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Þórsarar voru vel studdir af Græna drekanum sem fór mikinn í stúkunni í kvöld.

„Þór er með stóra og sterka útlendinga og við réðum ekki við þá en ég er samt mjög ánægður með framlagið hjá mínu liði. Það er flott reynsla að fá að spila í svona mikilli stemmningu,“ sagði Valur og bætti við að hann sé ánægður með byrjunina á mótinu.

„Við erum bara að reyna að verða betri í körfubolta og þó að við höfum unnið tvo fyrstu leikina þá erum við ekkert að reyna að sigra heiminn. Við áttum rosalega flottan leik á móti Blikunum og flottan seinni hálfleik hér í kvöld þannig að ég er mjög sáttur við mitt lið.“