„Treystum drengjunum okkar áfram“

Sebastian Alexandersson, þjálfari handknattleiksliðs Selfoss, segist ekki vera á höttunum eftir fleiri leikmönnum.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í dag hefur félagið samið við reynsluboltann Guðjón Finn Drengsson og segir Sebastian að sú sending hafi verið óvænt.

„Við höfum aðeins haft samband þrjá leikmenn í sumar. Einn sagði nei strax en hinir tveir voru langt komnir í viðræðum við okkur en völdu annað á síðustu stundu þannig að við vorum eiginlega búnir að ákveða að leita ekkert meira þegar að Guðjón datt í fangið á okkur alveg óvænt, sem betur fer. Ég er mjög ánægður með það að hafa fengið hann. Við erum því ekki að leita að meiri liðstyrk eins og er,“ sagði Sebastian í samtali við sunnlenska.is.

„Við ætlum að treysta okkar drengjum fyrir þessu áfram. Við hins vegar gátum ekki sleppt því að bæta við manni eins og Guðjóni þar sem hann kemur til með að hjálpa liðinu á svo miklu fleiri sviðum en bara með frammistöðu sinni á vellinum,“ segir Sebastian en gefur þó í skyn að annar liðsstyrkur sé á leiðinni.

„Það er fjarlægur möguleiki að við gætum fengið Michal Dostalík aftur en það er eitthvað sem stjórn deildarinnar verður að skoða vandlega með tilliti til kostnaðar. Ég myndi að minnsta kosti ekki segja nei við því.“

Fyrri greinNýr kaleikur í Skálholti
Næsta greinBátaþjófar við Þingvallavatn