Treyja Ronaldo seldist á eina milljón króna

Sævar Þór Gíslason, uppboðshaldari og Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildarinnar með Ronaldo treyjuna á uppboðinu í gærkvöldi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árlegt herrakvöld knattspyrnudeildar Selfoss var haldið með pompi og prakt í Hvíta húsinu á Selfossi í gærkvöldi.

Á herrakvöldinu er meðal annars haldið uppboð á listmunum og fleira til styrktar knattspyrnudeildinni en meðal hluta sem boðnir voru upp í gær var Real Madrid treyja, árituð af engum öðrum en knattspyrnugoðinu Cristiano Ronaldo.

Treyjan kom úr einkasafni Heiðars Helgusonar, aðstoðarþjálfara Selfossi, og fór ágóðinn af sölu hennar óskiptur til fjölskyldu ungs drengs sem í annað sinn á sinni stuttu ævi er að berjast við hvítblæði og er hann á leið til Svíþjóðar í beinmergsskipti.

Það var hart barist um treyjuna á uppboðinu en hæsta boðið var ein milljón króna frá aðila sem vildi ekki láta nafn síns getið og var treyjan slegin honum með það sama.

Fyrri greinEnn einn stórsigur Selfoss
Næsta greinÍBV stakk af í lokin