Tour de Hvolsvöllur – keppni sem komin er til að vera

Tour de Hvolsvöllur er götuhjólreiðakeppni sem endurvakin var árið 2011 og fer nú fram þriðja árið í röð laugardaginn 29. júní.

Boðið er upp á þrjár vegalengdir sem allar eiga endamark á Hvolsvelli, 110 km leið frá Reykjavík, 48 km frá Selfossi og fyrir þá sem vilja hjóla sér til gamans og heilsubótar er 14 km leið frá Hellu. Einnig er boðið upp á liðakeppni frá Reykjavík. Tímataka verður frá Reykjavík og Selfossi og í ár verður notast við tímatökukerfi frá Þríkó.

Árið 2012 tóku um 140 manns þátt í heildina og þar af hjóluðu 94 lengstu leiðina frá Reykjavík.

Hjólað er á þjóðvegi 1 að miklum hluta og því eru vegfarendur sem leið eiga milli Reykjavíkur og Hvolsvallar beðnir um að sýna aðgát og tilitssemi á meðan á áskoruninni stendur. Þó er sjálfsagt að hvetja þátttakendur til dáða.

Við endamarkið á Hvolsvelli verður tekið á móti þátttakendum og þeirra fylgdarfólki með dagskrá í miðbænum en hún hefst kl. 10:00.

Allar nánari upplýsingar um áskorunina og dagskránna á Hvolsvelli má nálgast á heimasíðu Rangárþings eystra og á Facebook.

Fyrri greinNemanja til liðs við Þórsara
Næsta greinBrotlending við Sultartangalón