Torsóttur sigur Selfyssinga

Tiffany McCarty skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hann var heldur torsóttur, en nokkuð öruggur, 1-0 sigur Selfoss á FH í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

Selfyssingar byrjuðu ekki vel í leiknum og FH átti ágætar sóknir í fyrri hluta fyrri hálfleiks. Hættulegasta færi FH kom á 21. mínútu og þá loksins vöknuðu Selfyssingar. Þær tóku stjórn á leiknum og sköpuðu helst hættu upp úr föstum leikatriðum þar sem Dagný Brynjarsdóttir var mjög ógnandi í teignum.

Sigurmark leiksins kom svo upp úr aukaspyrnu Önnu Maríu Friðgeirsdóttur af vinstri kantinum á 36. mínútu. Eftir skallaeinvígi inni á teignum barst boltinn á Karitas Tómasdóttur sem skallaði hann inn á Tiffany McCarty á markteignum og framherjinn afgreiddi boltann glæsilega í netið.

Baráttan í seinni hálfleik fór fram úti á vellinum og færin voru mjög fá. Besta færi Selfoss fékk Hólmfríður Magnúsdóttir sem slapp ein innfyrir á 67. mínútu. Markvörður FH náði hins vegar að pota boltanum í burtu á síðustu stundu. Leikurinn fjaraði mjög hratt út síðustu tuttugu mínúturnar, þar sem ekkert var að gerast og Selfyssingar sigldu leiknum örugglega heim.

Selfoss hefur nú 16 stig og er komið upp í 3. sæti deildarinnar.