Torfæruhátíð á Hellu um næstu helgi

Það verður mikið um að vera á Hellu um næstu helgi en þá verður haldið upp á 50 ára afmæli torfærunnar á Íslandi.

Þann 2. maí 1965 fór fram fyrsta keppni í torfæruakstri á Íslandi í landi Reykjahlíðar í Mosfellsdal. Bifreiðaklúbbur Reykjavíkur (B.K.R.) stóð fyrir keppninni og stóð Egill Gunnar Ingólfsson uppi sem sigurvegari á Willys CJ5 1964 módel. Jóel Jóelsson garðyrkjumaður í Reykjahlíð veitti B.K.R. leyfi fyrir keppninni á sinni landareign og mátti litlu muna að menn þyrftu sæta fangelsisvistar fyrir athæfið því slík keppni var með öllu bönnuð að sögn lögreglu.

Flugbjörgunarsveitin á Hellu er einn af elstu keppnishöldurum sem enn standa fyrir keppni í torfæruakstri. Sveitin ætlar, ásamt Torfæruklúbbi Suðurlands, að halda upp á 50 ára afmæli torfærunnar um næstu helgi 1. og 2. maí á akstursíþróttasvæði sveitarinnar rétt austan Hellu.

Föstudaginn 1. maí hefst Sindratorfæran á Hellu klukkan 13:00 og þar er um að ræða 1. umferð Íslandsmótsinns í torfæru. Eknar verða sex brautir og öllu til tjaldað. Um tuttugu keppendur skráðir til leiks sem munu etja kappi í ánni og mýrinni meðal annars.

Laugardaginn 2. maí hefst keppni klukkan 13:00 og þar er um að ræða 50 ára afmælissýningu þar sem nokkrir af helstu keppendum torfærusögunnar sýna að þeir hafa engu gleymt. Heyrst hefur að menn á borð við Ragnar Skúlason, Benedikt Eyjólfsson, Haraldur Pétursson, Gunnar Pálmi Pétursson, Árni Grant, Jamel Allansson, Einar Gunnlaugsson, Sigurður Þ. Jónsson, Árni Kópsson, Páll Pálsson og fleiri og fleiri ætli að mæta og sýna að þeir hafi engu gleymt.

Að henni lokinni kl. 15:00 fer fram fleytingakeppni á ánni þar sem torfærubílar, sleðar og hjól munu etja kappi sem og reyna að slá hraðamet í vatnaakstri og fleira til.

Aðgangseyrir er krónur 1.500 hvorn dag eða 2.500 fyrir báða dagana og frítt fyrir 12 ára og yngri.

Torfæran á Facebook

Torfæruáhugamenn á Facebook

Fyrri greinSkemmdir unnar á bílum á Selfossi
Næsta greinGóð mæting í styrktaræfingar Tönju Kolbrúnar