Torfæran styrkir langveik börn

Önnur umferð Íslandsmótsins í torfæru fer fram í Bolöldum við Litlu Kaffistofuna á laugardaginn. Helmingurinn af hagnaði mótsins verður gefinn til Umhyggju – styrktarfélags langveikra barna.

Akstursíþróttafélag Suðurnesja heldur keppnina í samstarfi við Bíla & hjól en AÍFS á 30 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni var ákveðið að styrkja Umhyggju en hugmyndin kom frá sunnlenska torfæruliðinu Hlunkunum.

Keppnin í Bolöldum hefst kl. 13 og eru tólf bílar skráðir til leiks. Búast má við hörkukeppni en meðal annars mun Trúðurinn mæta til keppni í fyrsta sinn með nýjan ökumann.

Eftir fyrstu umferðina sem fram fór í Vestmannaeyjum á dögunum er Selfyssingurinn Ívar Guðmundsson með forystu í flokki götubíla. Í sérútbúna flokknum má búast við að Benedikt Sigfússon og fleiri sunnlenskir ökumenn gefi allt í botn til að nálgast toppsætin í flokknum.

Keppendur og mótshaldarar skora á sem flesta að kíkja á keppnina og styðja verðugt málefni og fá góða skemmtun í leiðinni. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri en aðgangseyrir er 1500 kr. fyrir fullorðna.

Fyrri greinSluppu lítið meiddir úr bílveltu
Næsta greinSelfyssingar fari að huga að skreytingunum