Töpuðu niður tveggja marka forystu

Selfyssingar misstu unninn leik niður í jafntefli á þriggja mínútna kafla í blálokin þegar Valur kom í heimsókn í Lengjubikar karla í knattspyrnu í kvöld.

Þorsteinn Daníel Þorsteinsson kom Selfyssingum yfir með glæsilegu marki úr aukaspyrnu strax á 6. mínútu og á 30. mínútu skoraði Andri Már Hermannsson eftir klafs í vítateig Vals og staðan var 2-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var jafn og Selfyssingar áttu ágæta spretti inn á milli. Á 86. mínútu fengu Valsmenn dæmda vítaspyrnu og minnkuðu muninn úr henni og þremur mínútum síðar varð Geir Kristinsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark og niðurstaðan því 2-2 jafntefli.

Þetta var síðasti leikur Selfyssinga í Lengjubikarnum en þeir eru í 5. sæti síns riðils með 7 stig í 7 leikjum.