Töpuðu með 79 stiga mun

Kvennalið Laugdæla er úr leik í Poweradebikarnum í körfubolta eftir 106-27 tap gegn úrvalsdeildarliði Fjölnis í dag.

Eins og tölurnar gefa til kynna var mikill getumunur á liðunum en Fjölnir komst í 22-1 á fyrstu mínútum leiksins og leiddu að loknum 1. leikhluta, 30-5. Staðan var 57-10 í hálfleik.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og munurinn jókst jafnt og þétt. Fjölnir skoraði tuttugu fyrstu stigin í 3. leikhluta og komst í 77-10 en staðan var 83-17 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar juku Fjölniskonur muninn um þrettán stig til viðbótar.

Elma Jóhannsdóttir var stigahæst hjá Laugdælum með 10 stig og Hafdís Ellertsdóttir skoraði 9. Báðar tóku þær átta fráköst.