Töpuðu í baráttunni um Suðurland

Selfoss varð undir í baráttunni gegn ÍBV í Suðurlandsslagnum í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Eyjamenn mættu í Vallaskóla og sigruðu 26-32.

Selfyssingar voru ekki með í leiknum fyrsta korterið, ÍBV skoraði fjögur fyrstu mörk leiksins og eftir tæpar fimmtán mínútur var staðan orðin 3-9. Þá loksins hrukku Selfyssingar í gang og minnkuðu muninn í 7-10 en Eyjamenn hleyptu þeim vínrauðu ekki nær og juku forskotið í fimm mörk fyrir hálfleik, 11-16.

Seinni hálfleikurinn þróaðist líkt og sá fyrri þar sem lítið gekk upp hjá Selfyssingum framan af. Þegar tæpar þrettán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var staðan 14-22 en þá kom 4-0 kafli hjá Selfyssingum sem eygðu örlitla von í kjölfarið.

Munurinn hélst í fjórum mörkum þangað til átta mínútur voru eftir af leiknum. Selfyssingar fengu möguleika á að minnka muninn í þrjú mörk í stöðunni 22-26 en töpuðu boltanum, misstu mann af velli og ÍBV jók forskotið aftur.

Eyjamenn spiluðu fast í vörninni eins og svo oft áður og voru manni færri í fjórtán mínútur en Selfyssingar nýttu sér liðsmuninn ekki vel. Selfoss gerði mörg mistök í sókninni, sérstaklega í fyrri hálfleik og fengu á sig hraðar sóknir í kjölfarið. Þá munaði miklu um markvörsluna en markvörður Eyjamanna lék á alls oddi í kvöld á meðan markverðir Selfoss voru með um 35% markvörslu.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Matthías Halldórsson skoraði 6, Hörður Bjarnarson 5/2, Einar Pétur Pétursson 4 og þeir Magnús Magnússon og Jóhann Erlingsson skoruðu báðir 2 mörk.

Helgi Hlynsson varði 11 skot í marki Selfoss og var með 34% markvörslu en Sverrir Andrésson varði 6/1 skot og var með 35% markvörslu.

Með sigrinum fór ÍBV upp fyrir Selfoss á stigatöflunni en Selfyssingar eru nú í 4. sæti deildarinnar með 10 stig. ÍBV og Víkingur hafa 11 og Stjarnan 12.

Fyrri greinViltu áritaðan búning frá nýjasta landsliðsmanninum?
Næsta greinGöngustíg að Gullfossi lokað