Toppliðið of stór biti

Rakel Guðjónsdóttir skoraði 4 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss heimsótti topplið Vals að Hlíðarenda í Olísdeildinni í handbolta í dag. Valskonur voru sterkari í leiknum og unnu að lokum öruggan sigur.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku Valskonur völdin og leiddu með 2-4 mörkum allan fyrri hálfleikinn. Staðan var 18-14 í hálfleik. Munurinn hélst svipaður fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik en þá fékk Roberta Stropé sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald og þar með var stórt skarð hoggið í vörnina hjá Selfyssingum. Valskonur gengu á lagið og sigruðu að lokum með tólf marka mun, 35-23.

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Rakel Guðjónsdóttir og Roberta Stropé skoraði 4, Ásdís Þóra Ágústsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3 og Kristín Una Hólmarsdóttir 1. Cornelia Hermansson varði 8 skot í mark Selfoss, Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 2 og Áslaug Ýr Bragadóttir 2.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 4 stig og Valur er áfram á toppnum, núna með 18 stig.

Fyrri greinUngmennaliðið tapaði með tíu
Næsta greinHamar á toppnum um jólin