Toppliðið fór létt með botnliðið

Arna Kristín Einarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Topplið Selfoss átti ekki í neinum vandræðum með að sigra botnlið Berserkja í 1. deild kvenna í handbolta í dag, þegar liðin mættust í Víkinni.

Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar en eftir korters leik voru Selfyssingar komnir með fimm marka forskot, 8-13. Munurinn jókst hratt eftir það og í hálfleik var staðan 12-24. Yfirburðir Selfoss voru algjörir í seinni hálfleik og Berserkir skoruðu aðeins fjögur mörk allan seinni hálfleikinn á meðan þær vínrauðu léku á als oddi í sókninni. Í leikslok skildu 27 mörk liðin að, 16-43.

Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir og Katla María Magnúsdóttir skoruðu báðar 9, Harpa Valey Gylfadóttir 7, Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Hulda Dís Þrastardóttir 2 og þær Adela Jóhannsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir átti fínan leik í rammanum og varði 16 skot í marki Selfoss.

Selfyssingar eru nú komnir í jóla og HM-frí fram í janúar og eru ósigraðar í toppsæti deildarinnar.

Fyrri greinTomasz framlengir hjá Árborg
Næsta greinNaumt tap í toppbaráttunni