Selfoss tapaði stórt þegar Valur kom í heimsókn í Set-höllina í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld. Gestirnir unnu öruggan sigur, 20-32.
Liðunum gekk illa að skora í upphafi og eftir tæpar átta mínútur var staðan 2-2. Þá tóku Valskonur við sér, skoruðu fjögur mörk í röð og héldu því forskoti næstu mínúturnar. Munurinn varð mestur sjö mörk undir lok fyrri hálfleiks en staðan í leikhléi var 6-13.
Forskot Vals var ekki ógnað í seinni hálfleiknum en gestirnir náðu mest fjórtán marka forystu þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.
Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 5/4 mörk, Mia Kristin Syverud skoraði 4, Adela Eyrún Jóhannsdóttir 3, Inga Dís Axelsdóttir, Marte Syverud og Eva Lind Tyrfingsdóttir 2 og þær Sylvía Bjarnadóttir og Arna Kristín Einarsdóttir skoruðu 1 mark hvor.
Sara Xiao Reykdal var með 8 varin skot í marki Selfoss og 23% markvörslu og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 4 skot og var með 44% markvörslu.
Selfoss er í botnsæti deildarinnar með 4 stig en Valur á toppnum með 26 stig þegar 15 umferðum af 21 er lokið.

