Toppbaráttan galopin eftir tvö töp í röð

Hrvoje Tokic skoraði sitt þrettánda mark í 2. deildinni í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Baráttan um sæti í 1. deild karla er orðin æsispennandi eftir að Selfoss tapaði öðrum leiknum í röð nú í kvöld, þegar liðið heimsótti topplið Kórdrengja í Safamýrina í Reykjavík.

Kórdrengir voru sterkari í fyrri hálfleik og áttu nokkrar snarpar sóknir. Hákon Ingi Einarsson kom þeim yfir á 10. mínútu eftir klaufagang í vörn Selfoss og á 28. mínútu tvöfaldaði Albert Brynjar Ingason forskot Kórdrengja með marki upp úr hornspyrnu. Í millitíðinni höfðu Selfyssingar sótt nokkuð og skapað hættu upp við mark Kórdrengja án þess að ná að skora.

Staðan var 2-0 í hálfleik en strax á 5. mínútu seinni hálfleiks minnkaði Hrvoje Tokic muninn fyrir Selfoss með snyrtilegu marki. Stefán Ágústsson, markvörður Selfoss, tók þá langa markspyrnu sem skoppaði yfir varnarmann Kórdrengja og Tokic var fljótur að átta sig og lyfti boltanum yfir markvörðinn, sem var mættur út í skógarhlaup.

Selfyssingar ógnuðu talsvert eftir þetta en vígtennurnar voru dregnar úr þeim á 72. mínútu þegar Kórdrengir skoruðu sitt þriðja mark. Þar var á ferðinni Jordan Damachoua með hörkuskalla eftir hornspyrnu.

Leikurinn fjaraði hratt út á lokakaflanum í kuldanum í Safamýrinni en reyndar var leikmönnum nokkuð heitt í hamsi á tímabili. Lokatölur urðu 3-1 og Kórdrengir eru komnir langleiðina með að tryggja sér sæti í 1. deild að ári.

Kórdrengir hafa 43 stig á toppnum en Selfyssingar eru komnir niður í 3. sætið með 37 stig, eins og Þróttur Vogum sem er í 2. sæti, en Þróttarar hafa mun betra markahlutfall. Njarðvík er svo í 4. sætinu með 36 stig. Fjórar umferðir eru eftir af deildinni og næsti leikur Selfoss er á heimavelli á sunnudaginn gegn KF.

Fyrri greinHamar mætir KFS í undanúrslitum 4. deildarinnar
Næsta greinFern umhverfisverðlaun veitt í Árborg