Toppbaráttan æsispennandi

Öflugur Ahmed Adly er kominn með 3,5 vinning eins og tveir aðrir keppendur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir fimm umferðir eru þrír keppendur efstir og jafnir með 3,5 vinninga á heimsmeistaramóti Skákfélags Selfoss og nágrennis en fimmta umferðin var tefld á Hótel Selfossi í dag.

Toppbaráttan á mótinu er æsispennandi en Ahmed Adly kom sér upp á meðal efstu manna með því að leggja Héðinn Steingrímsson að velli í dag þar sem Adly hafði sigur í drottningarendataflinu, þrátt fyrir góð tilþrif frá Héðni.

Hannes Hlífar Stefánsson vann líka góðan sigur á Helga Áss Grétarssyni eftir jafna skák þar sem Helgi lék af sér í tímahraki og þurfti að játa sig sigraðan skömmu síðar.

Í öðrum skákum dagsins varð niðurstaðan jafntefli en Sergei Zhigalko og Dinara Saduakassova skildu jöfn, Rafael Leitão og Mikhail Antipov gerðu jafntefli og sömuleiðis Sarasadat Khademalsharieh og Semyon Lomasov.

Staðan á heimsmeistaramótinu eftir fimm umferðir:
Ahmed Adly 3,5 v.
Mikhail Antipov 3,5 v.
Semyon Lomasov 3,5 v.
Hannes Hlífar Stefánsson 3,0 v.
Rafael Leitão 2,5 v.
Sergei Zhigalko 2,0 v.
Dinara Saduakassova 2,0 v.
Sarasadat Khademalsharieh 2,0 v.
Héðinn Steingrímsson 1,5 v.
Helgi Áss Grétarsson 1,5 v.

Sjötta umferðin verður tefld á morgun, mánudag kl. 17:00. Meðal viðureigna á morgun verður skák Adly gegn Leitão og önnur áhugaverð viðureign er skák Hannesar Hlífars og Sergei Zhigalko.

Fyrri greinÍslandsmeistararnir völtuðu yfir Fjölnismenn
Næsta greinHornfirðingar treysta á öflugar almenningssamgöngur