Tómas tryggði Selfossi stig

Selfoss og Breiðablik skildu jöfn, 1-1, í kaflaskiptum leik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Selfyssingar voru arfaslakir í fyrri hálfleik, Blikar réðu lögum og lofum og áttu nokkur prýðisfæri.

Selfyssingar létu lítið að sér kveða en fengu þó gott færi á 11. mínútu þegar Viðar Örn Kjartansson fékk sendingu innfyrir en fór illa að ráði sínu í góðri stöðu,

Blikar áttu tvö hættuleg færi um miðjan hálfleikinn áður en þeir tóku verðskuldað forystuna á 34. mínútu. Rafn Andri Haraldsson skallaði þá boltann inn eftir fyrirgjöf frá hægri.

Tveimur mínútum síðar voru Selfyssingar heppnir að fá ekki annað mark á sig þegar Bernard Brons rann í teignum en sóknarmaður Blika hitti ekki markið.

Selfyssingar voru mun hættulegri framan af síðari hálfleik og áttu fyllilega skilið að jafna metin á 64. mínútu. Viðar Örn átti þá frábæra sendingu innfyrir á Tómas Leifsson sem kláraði færið af öryggi.

Áfram hélt Selfoss að sækja og Tómas og Jón Daði Böðvarsson fengu báðir prýðileg færi þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. Blikar minntu þó á sig í lokin og fengu tvö dauðafæri á síðustu fimm mínútunum en inn fór boltinn ekki og liðin sættust á 1-1 jafntefli.

Selfyssingar eru áfram í fallsæti með 15 stig en hafa nú minnkað muninn á Framara niður í eitt stig en fram á leik til góða gegn KR.

Fyrri greinTýnda konan leitaði að sjálfri sér
Næsta greinYfir 1700 í alvarlegum vanskilum