Tómas með tvö í sigri Árborgar

Keppni í Sunnlenska.is bikarnum í knattspyrnu hófst á miðvikudagskvöld þegar lið Árborgar 1 og Hamars mættust á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

Lið Hamars er frekar mikið breytt frá síðasta tímabili og er nú einungis skipað heimamönnum úr Hveragerði. Lið Árborgar var lítið sem ekkert breytt frá því á síðasta ári fyrir utan tvo nýja leikmenn þá Halldór Áskell Stefánsson, sem er byrjaður aftur eftir smá hlé, og Tómas Ingva Hassing, sem er nýkominn frá Hamri.

Leikurinn einkenndist af því að vera fyrsti leikur beggja liða á undirbúningstímabilinu og voru Hamarsmenn mun baráttuglaðari í upphafi leiks og gáfu Árborgunum engin grið. Leikurinn jafnaðist þegar leið á fyrri hálfleikinn.

Tómas Hassing var hættulegastur Árborgara í fyrrihálfleik og hefði getað komið boltanum í netið eftir klafs í teignum en besta færi fyrri hálfleiks átti Þorlákur Máni Dagbjartsson er hann komst inn fyrir vörn Árborgar en setti boltann yfir markið. Staðan í hálfleik 0-0.

Í seinni hálfleik mættu leikmenn Árborgar mun sterkari til leiks og voru með yfirhöndina það sem eftir lifði leiks. Strax á fimmtu mínútu seinni hálfleiks skorði Tómas Hassing fyrsta mark leiksins og fyrsta mark sitt fyrir Árborg, sannkallað Thierry Henry mark, þar sem hann smurði boltann glæsilega upp í samskeytin fjær. Árborgarmenn héldu pressunni áfram og á 60. mínútu skoraði Tómas sitt annað mark eftir frábæra stungusendingu frá nafna sínum, Tómasi Sjöberg Kjartanssyni, 2-0.

Eftir þetta róaðist leikurinn en Tómas Ingvi fékk þó færi til að fullkomna þrennu sína en frábær markvarsla Hlyns Kárasonar, sem virtist í góðu formi, kom í veg fyrir það.

Þegar á heildina er litið var þetta skemmtilegur leikur sem bauð upp á baráttu, fína knattspyrnu á köflum sem og glæsileg mörk. Gefur þetta góð fyrirheit fyrir komandi tímabil hjá báðum liðum.

Byjunarlið Árborgar: Einar Guðni Guðjónsson, Steinar Sigurjónsson, Halldór Áskell Stefánsson, Hálfdán Helgi Hálfdánarson, Pálmi Þór Ásbergsson, Eiríkur Raphael Elvy, Arnar Freyr Óskarsson, Daníel Ingi Birgisson, Tómas Sjöberg Kjartansson, Hartmann Antonsson og Tómas Ingvi Hassing.

Byrjunarlið Hamars: Hlynur Kárason, Björn Ásgeir Björgvinsson, Helgi Guðnason, Indriði Hrannar Blöndal, Bjarnþór Breki Sævarsson, Ágúst Örlygur Magnússon, Hákon Harðarson, Jóhann Snorrason, Hafþór Vilberg Björnsson, Þorlákur Máni Dagbjartsson og Ómar Andri Ómarsson.

Dómarar: Gunnar Fannberg Jónasson, aðaldómari.

Úrslit leiks: Árborg 2 – 0 Hamar

Markaskorarar: Tómas Ingvi Hassing með bæði mörk Árborgar.

Fyrri greinSnýst um að spara krónur
Næsta greinBjörgvin hefur endurgreitt Ásahreppi að fullu