Tómas Ingi ráðinn framkvæmdastjóri

Tómas Ingi Tómasson við Grýluvöll í gær. Ljósmynd/Linda Dögg Guðmundsdóttir

Tómas Ingi Tómasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Hamars í Hveragerði og hefur hann þegar hafið störf.

Í samvinnu við aðalstjórn, mun hann hafa umsjón yfir fjármálum og daglegum rekstri, sjá um stefnumótun og samskipti fyrir hönd deildarinnar, halda utan um undirbúning fyrir fjáraflanir og fleira sem kemur að skipulagi starfsins.

„Framundan er nóg af spennandi verkefnum, bæði stór og smá. Við hlökkum mikið til að vinna með Tómasi á næstu misserum, þar sem hann kemur hér inn með þvílíka reynslu, drifkraft og jákvæðni. Við hjá knattspyrnudeild Hamars erum virkilega stolt og ánægð að fá Tómas til liðs við okkur og hlökkum til samstarfsins í áframhaldandi uppbyggingu félagsins,“ segir Eydís Valgarðs, formaður knattspyrnudeild Hamars.

Allir rói í sömu átt
Tómas Ingi er fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og reynslumikill þjálfari en hann hefur starfað sem aðstoðarþjálfari U-21 landsliðs Íslands, yfirþjálfari yngri flokka og svo síðar yfirmaður knattspyrnumála hjá Fylki.

„Það sem heillaði mig mest við þetta starf, var drifkrafturinn sem ég upplifði í fyrsta símtali sem ég fékk frá formanni deildarinnar og þar á eftir fyrsti fundurinn með aðalstjórn og barna- og unglingaráði. Mikill vilji að gera miklu betur er eitthvað sem hefur ávallt drifið mig áfram í lífinu og fann ég þann metnað frá þeim. Mitt fyrsta markmið er að ná utanum starfið og vera eins leiðbeinandi til annarra eins og ég get. Ég hlakka líka til að kynnast og læra af þeim sem ég mun starfa með,“ segir Tómas Ingi.

Aðspurður hvort hann sé spenntur fyrir þessum nýja kafla segir hann að starfið leggist vel í sig. „Það sem skiptir máli er að sem flestir vinni saman í að róa í sömu átt. Það eru margar sögupersónur í þessum kafla og hef ég trú á því að við getum lyft starfinu í knattspyrnudeild Hamars með sameiginlegu átaki. Áfram Hamar!“

Fyrri grein„Þetta er okkur hjartans mál“
Næsta greinMeðal topp 10% veitingastaða í heiminum