Tómas Hassing með fimm mörk í stórsigri Árborgar

Árborg tryggði sér endanlega sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu með 11-2 sigri á botnliði Kónganna á Selfossvelli í kvöld. Tómas Ingvi Hassing skoraði fimm mörk í leiknum.

„Við mættum vel gíraðir til leiks í kvöld og náðum að skora snemma og klára leikinn. Sóknarleikurinn var fínn í fyrri hálfleik en við byrjuðum seinni hálfleikinn illa og náðum ekki sama dampi. Við fengum klaufaleg mörk á okkur og það var leiðinlegt fyrir Ingimar að gefa tvö mörk með hendinni,“ sagði Brynjar Þór Elvarsson, einn markaskorara Árborgar í kvöld.

Brynjar hefur verið lykilmaður í vörn Árborgar í sumar, en markið í kvöld var hans fyrsta fyrir félagið. „Þetta var gott mark. Eftir frábæran sprett og smá klafs fæ ég bara frábæra stoðsendingu frá markverði Kónganna. Hann tók hann á kassann og lagði hann fyrir mig og þá var ég kominn einn á móti marki. Maður er náttúrulega skruggufljótur og lætur ekki bjóða sér svona færi tvisvar. Ég er auðvitað að sýna þjálfaranum með þessu að ég get spilað framar á vellinum, en ætli hann hafi mig ekki í vörninni áfram,“ sagði Brynjar og hrósaði Guðjóni Hálfdánarsyni, þjálfara Árborgar, sérstaklega fyrir uppleggið í leiknum. „Guðjón lagði leikinn vel upp en hann var reyndar orðinn svolítið æstur á hliðarlínunni á tímabili og vildi fá fleiri og fleiri mörk. Ég er mjög sáttur eftir kvöldið og reyndar jafnvel sáttari við það að hafa náð að spila ellefu leiki af tólf í sumar og það er auðvitað styrktar- og sjúkraþjálfurunum liðsins að þakka,“ sagði Brynjar og bætti við að úrslitakeppnin leggist vel í Árborgara.

„Við mætum hörkuliði Vængja Júpíters í 8-liða úrslitum, Fjölnisstrákar með reynslubolta inn á milli og það verður mjög spennandi verkefni. Við eigum bara bullandi séns.“

Hartmann Antonsson tók undir þessa skoðun Brynjars, en hann er einn af leikmönnum Árborgar sem lék í úrslitakeppninni árið 2010, þegar liðið varð í 3. sæti og komst upp um deild.

„Það var mjög mikilvægt að klára riðilinn með sannfærandi sigri. Þetta var reyndar örugglega hundleiðinlegur leikur á að horfa og í raun formsatriði að klára þetta, en við mættum ákveðnir til leiks og gefum með því tóninn fyrir úrslitakeppnina. Úrslitakeppnin leggst mjög vel í okkur alla. Þetta er allt öðruvísi keppni, fyrirkomulagið er eins og Meistaradeild Evrópu, spilað heima og heiman. Þetta er mjög erfitt mót og miklu meiri áskorun og erfiðara verkefni heldur en margir halda. Það má ekkert útaf bregða, þá er allt farið í vaskinn,“ sagði Hartmann, sem skoraði tvö mikilvæg mörk í síðustu úrslitakeppni Árborgar. En hvað ætlar hann að skora mörg núna?

„Mér er alveg sama, svo lengi sem við vinnum leikina. Ef ég þekki mig rétt þá á ég pottþétt eftir að setja eitt eða tvö og Tómas Hassing á örugglega eftir að skora fleiri.“

Einstefna að marki Kónganna
Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn einstefna að marki Kónganna og mörk Árborgar hefðu auðveldlega getað orðið fleiri en liðið óð í færum á köflum. Bæði mörk Kónganna komu úr föstum leikatriðum í síðari hálfleik, vítaspyrnu og aukaspyrnu, eftir að Ingimar Helgi Finnsson, leikmaður Árborgar, hafði handleikið knöttinn bæði innan og utan vítateigs.

Markaveislan byrjaði strax á sjöundu mínútu með marki Hartmanns en á eftir fylgdu mörk frá Tómasi Hassing og Ísaki Eldjárn Tómassyni. Tómas skoraði fjórða mark Árborgar á 29. mínútu og Arnar Freyr Óskarsson kom Árborg í 5-0 á 35. mínútu. Tveimur mínútum síðar innsiglaði Tómas Hassing þrennuna og staðan var 6-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði fjörlega, á stórsókn Árborgar, en Tómas Hassing breytti stöðunni í 7-0 á 49. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði Arnar Freyr sitt annað mark og áttunda mark Árborgar.

Kóngarnir minnkuðu muninn í 8-1 með marki úr vítaspyrnu á 63. mínútu en Tómas Hassing skoraði sitt fimmta mark og níunda mark Árborgar á 72. mínútu.

Síðustu tuttugu mínúturnar datt dampurinn aðeins úr leik Árborgar en liðið hafði þrátt fyrir það áfram yfirburði úti á miðjum vellinum.

Kóngarnir náðu aftur að minnka muninn, nú í 9-2, með glæsilegu aukaspyrnumarki á 90. mínútu en þá tóku Árborgarar loksins við sér aftur. Magnús Helgi Sigurðsson skoraði langþráð mark á 93. mínútu og Brynjar Þór skoraði ellefta og síðasta mark Árborgar á 94. mínútu.

Árborg mætir Vængjum Júpíters í 8-liða úrslitum 4. deildarinnar, en leikið er heima og heiman. Fyrri leikurinn verður á Selfossvelli laugardaginn 29. ágúst kl. 12:00.

Fyrri greinStolið úr bílum á Selfossi
Næsta greinRaggi Bjarna og Þorgeir í Sólheimakirkju