Tómas Hassing í Árborg

Sóknarmaðurinn skæði, Tómas Ingvi Hassing, mun leika með Árborg í 4. deild karla í knattspyrnu á komandi keppnistímabili.

Tómas gekk í raðir Árborgar fyrir helgi frá uppeldisfélagi sínu, Hamri í Hveragerði.

Tómas, sem er tvítugur, hefur leikið 49 meistaraflokksleiki fyrir Hamar og skorað í þeim 15 mörk, en hann skoraði sjö mörk fyrir liðið í 3. deildinni í fyrra.

Árborg hefur keppni í deildarbikarnum um miðjan mars en liðið er í riðli með Ísbirninum, KB, KFG, Kormáki og Vængjum Júpíters.