Tólfti maðurinn er engin þjóðsaga

Keppni í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu hefst í kvöld en Selfoss heimsækir Þrótt á gervigrasvöllinn í Laugardalnum kl. 19:15 í kvöld.

„Það hefur gengið mjög vel. Þær hafa æft svakalega mikið og allar komist heilar í gegnum það, fyrir utan eðlilega, litla hnökra,“ segir Gunnar Borgþórsson, þjálfari liðsins, um undirbúningstímabilið sem nú er lokið. „Við fórum líka til Spánar í sjö daga ferð sem heppnaðist frábærlega í alla staði.“

Lið Selfyssinga er nokkuð breytt frá síðasta sumri. „Það er búið að skipta út nokkrum leikmönnum, því við erum búin að missa nokkra góða leikmenn. En við höfum fengið góðar stelpur og svo hafa stelpurnar hérna heima stigið upp. Það er mikið um góðar stelpur hérna heima,“ segir Gunnar, en leikmenn hafa ýmist haldið utan í nám, glíma við meiðsli eða skipt í önnur félög.

Þá eru komnar þrjár stelpur frá Bandaríkjunum, þær Valorie O´Brien, sem lék með liðinu í fyrra, Tiana R. Brockway og Michele K. Dalton. „Við ákváðum að fá útlensku stelpurnar aðeins fyrr svo að þær myndu komast inn í samfélagið okkar fyrr,“ segir Gunnar sem er mjög ánægður með liðið sem hann fer með inn í mótið.

„Liðið er mjög gott, mjög samstillt. Það er ekki síður þessum stelpum sem eru komnar nýjar inn að þakka. Það er mjög góður andi og mikið félagslíf innan liðsins,“ segir þjálfarinn. „Líkamlegi þátturinn er mjög góður. Við erum náttúrlega ekki með stóran hóp eins og stærstu liðin í Pepsideildinni. Þannig að við megum ekkert við að missa leikmenn í meiðsli.“

Gunnar segist þó gera sér fyllilega grein fyrir því erfiða verkefni sem framundan er. „Það er oft talað um að annað árið í deildinni sé erfiðast. Það er erfitt en það er líka skemmtilegt að þurfa að hafa fyrir hlutunum,“ segir Gunnar. „Ég held að það sé raunhæft að við setjum okkur það markmið að við ætlum að halda okkur í þessari efstu deild. Svo ef við sjáum að við séum að nálgast það markmið þá er hægt að setja sé enn göfugra markmið.“

Gunnar segir að stuðningsmenn Selfoss verði gríðarlega mikilvægir í sumar og að þeir skipti liðið höfuðmáli. „Það er oft talað um tólfta manninn og það er engin þjóðsaga. Þetta er ungt lið, margar heimastelpur og stelpur úr sveitinni sem að eflast við það að láta klappa sér á bakið,“ segir Gunnar.

„Við viljum endilega sjá fulla stúku í hverjum leik ef það er möguleiki.“

Fyrri greinFjóla keppir á Smáþjóðaleikunum
Næsta greinBirkir og Hlynur spila með FSu