Tólf keppendur frá Selfossi valdir í landslið

Fjórtán Selfyssingar verða í eldlínunni á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum sem fram fer í Árósum í Danmörku 16.-20. október næstkomandi.

Tólf keppendur frá fimleikadeild Umf. Selfoss hafa verið valdir í landslið Íslands sem taka munu þátt á Evrópumótinu. Auk þess fara tveir landsliðsþjálfarar frá Selfossi á mótið.

Fjórar Selfosskonur voru valdar í landslið fullorðinna í blönduðum flokki karla og kvenna. Í liðinu eru átta karlar og átta konur og helmingur kvennanna kemur frá Umf. Selfoss. Það eru þær Rakel Nathalie Kristinsdóttir, Hugrún Hlín Gunnarsdóttir, Katrín Ösp Jónasdóttir og Helga Hjartardóttir.

Selfoss átti þrjár stúlkur í landsliðsúrtaki í unglingaliði 13-17 ára og voru þær allar valdar í landsliðið. Þetta eru þær Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Eva Grímsdóttir og Margrét Lúðvígsdóttir.

Í blandað unglingalið 13-17 ára voru valdir fimm Selfyssingar, þau Ástrós Hilmarsdóttir, Bryndís Arna Þórarinsdóttir, Nadía Björt Hafsteinsdóttir, Ægir Atlason og Aron Bragason.

Auk keppendanna á Selfoss tvo landsliðsþjálfara en Sigrún Ýr Magnúsdóttir stýrir dansinum í unglingaliði blandaðra liða og Olga Bjarnadóttir stýrir stökkhlutanum í sama liði.

Uppselt er á mótið í Danmörku en fjöldi Selfyssinga mun fylgja liðunum út til að sjá þau keppa fyrir Íslands hönd.

Fimleikasamband Íslands ákvað strax á síðasta ári að félagslið Gerplu myndi keppa sem Ísland á þessu móti í fullorðinsflokki kvenna enda núverandi Íslandsmeistarar með mikla og þétta umgjörð.

Í kvöld hittist landsliðsfólkið frá Selfossi í Sunnulækjarskóla þar sem þau tóku við blómum og hamingjuóskum frá stjórn fimleikadeildarinnar og hvatningaróskum fyrir mótið. Mikil hamingja er í herbúðum fimleikadeildarinnar og ekki að furða þar sem þessi árangur er frábær og mikil viðurkenning á starfi deildarinnar.

Fyrri greinHjálmlaus á vespu með tvo farþega
Næsta greinUmtalsverð framleiðsluaukning á milli ára