Tólf HSK met sett á Silfurleikum ÍR

Silfurleikar ÍR í frjálsíþróttum voru haldnir í Laugardalshöllinni 18. nóvember síðastliðinn og fjölmenntu börn og unglingar af sambandssvæði HSK á mótið.

Tólf HSK met voru sett á mótinu og hafa þá samtals 92 HSK met verið sett innanhúss í öllum aldursflokkum það sem af er ári.

Sigurjón Reynisson setti HSK met í 600 metra hlaupi í flokki 12 ára, hljóp á 1;50,78 mín og í sama aldursflokki hljóp Haukur Arnarsson 200 m hlaup á 27,36 sek sem er nýtt HSK met.

Eitt met var sett í 13 ára flokki, en Sæþór Atlason bætti ársgamalt met í 60 m grindahlaupi, hljóp á 9,65 sek.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson bætti eigin HSK met í 14 ára flokki í tveimur greinum, í 60 m hlaupi þar sem hann hljóp á 7,70 sek og í 200 á 24,61 sek. Eva María Baldursdóttir þríbætti eigið met í þrístökki í 14 ára flokki, stökk fyrst 10,70m, þá 10,74 m og svo 11,04 m í síðustu umferð, en sá árangur er einnig HSK met í 15 ára flokki.

Dagur Fannar Einarsson setti met í 800 m hlaupi í flokki 15 ára og einnig í flokki 16-17 ára, en hann hljóp hringina fjóra á 2;11,25 mín. Bríet Bragadóttir bætti svo eigið met í 60 m grindahlaupi í flokki 15 ára, en hún kom í mark á 9,45 sek.

Fyrri greinEgill keppir á sterkasta móti ársins
Næsta greinBleikar og bláar heyrúllur safna 1,2 milljónum króna