Tókst ekki að kveða niður falldrauginn

Hamarsmönnum tókst ekki að kveða niður falldrauginn þegar þeir heimsóttu Fjarðabyggð á Eskifjörð í botnbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag.

Fjarðabyggð komst í 1-0 í fyrri hálfleik en Abdoulaye Ndiaye jafnaði metin fyrir leikhlé og staðan var 1-1 í tetímanum.

Heimamenn voru svo ákveðnari í síðari hálfleik, bættu við tveimur mörkum og sigruðu 3-1. Með sigri hefðu Hamarsmenn tryggt sér áframhaldandi sæti í deildinni en það gekk ekki eftir.

Fjarðabyggð minnkaði þar með forskotið á Hamar niður í fimm stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Hamar er með 20 stig í níunda sæti, Grótta er með 19, Fjarðabyggð 15 og KFR er á botninum með 6 stig en liðið er fallið í nýju 3. deildina.