Tokic skoraði fimm mörk á augnabliki 

Hrvoje Tokic skoraði af punktinum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann stórsigur á Augnabliki í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu þegar liðin mættust í Fagralundi í Kópavogi í dag. Lokatölur urðu 2-9.

Augnablik komst yfir á 12. mínútu en í kjölfarið skoraði Valdimar Jóhannsson tvívegis fyrir Selfoss með fimm mínútna millibili og síðan komu tvö mörk í röð frá Hrvoje Tokic. Staðan 1-4 í hálfleik.

Þegar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik minnkaði Augnablik muninn í 2-4 og það kveikti í Tokic sem skoraði þrennu á sjö mínútna kafla og kappinn því samtals kominn með fimm mörk. Reda Maamar og Ingi Rafn Ingibergsson bættu svo við sitthvoru markinu í uppbótartímanum og lokatölur því 2-9.

Selfoss er í toppsæti riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir en Augnablik er í botnsætinu og hefur ekki unnið leik.

Fyrri greinMilljónamiði í Skálanum
Næsta greinRaflínur slitnuðu á mörgum stöðum